Silicor semur við AM Technical Solutions um verkefnastjórnun

Silicor Materials hefur samið við bandaríska fyrirtækið AM Technical Solutions(AMTS) um að annast verkefnastjórnun við byggingu sólarkísilvers fyrirtækisins á Grundartanga. 

AMTS er sérhæfir sig í umsjón með byggingaframkvæmdum og verkefnastjórnun fyrir hátækniiðnaðinn. Silicor valdi AMTS egna alþjóðlegrar reynslu fyrirtækisins og góðs árangurs við stjórnun byggingar flókinna hátækniverksmiðja. AMTS mun samræma byggingaframkvæmdir og framkvæmdir vegna tækjabúnaðar í verksmiðjunni. 

Silicor hafði þegar samið við þýska iðnfyrirtækið SMS Siemag  um framleiðslu og uppsetningu á tækjabúnaði og danska verktakafyrirtækið MT Højgaard um byggingu sólarkísilversins.

ESA staðfestir fjárfestingarsamning

Fjárfestingarsamningur Silicor Materials og íslenska ríkisins, vegna uppbyggingar sólarkísilvers á Grundartanga, er í samræmi við leiðbeiningarreglur um byggðaaðstoð. Þetta er niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem tilkynnt var meðfréttatilkynningu 29. júlí. Þetta er mikilvægur áfangi í undirbúningi Silicor fyrir uppbyggingu sólarkísilversins á Grundartanga. Næstu áfangar eru að ljúka síðari hluta fjármögnunar og ganga frá samningum um orkuafhendingu.
 
Í tilkynningu ESA kemur fram að gert sé ráð fyrir að um 450 manns muni starfa við sólarkísilverið og búist sé við að það muni hækka laun á svæðinu. Í tilkynningu kemur einnig fram að ESA telji að starfsemi sólarkísilvers Silicor muni auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu og styrkja efhagslífið á Vesturlandi.
 
Fjárfestingasamningur Silicor og íslenska ríkisins byggir á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Til að slíkir samningar geti tekið gildi þurfa þeir að fá staðfestingu frá ESA á því að þeir uppfylli skilyrði í leiðbeiningarreglum ESA. Reglurnar gera þá kröfu að ríki tryggi að aðstoðinni sé stillt í hóf og hagræði af henni vegi þyngra en möguleg samkeppnisröskun, auk þess að sýna verður fram á að aðstoðin sé viðeigandi og stuðli að byggðarþróun.
 
Á grundvelli fjárfestingasamningsins mun íslenska ríkið veita Silicor stuðning í formi skattahagræðis og ívilnandi reglna um leigu og fyrningu í tíu ár frá því að sólarkísilverið tekur til starfa. Aðstoðin er metin á um 4,64 milljarða króna en heildarfjárfesting Silicor Materials vegna uppbyggingar sólarkísilsversins á Grundartanga er um 120 milljarðar króna.

Silicor hefur engin tengsl við Burbanks Capital

Að gefnu tilnefni vill Silicor Materials koma því á framfæri að fyrirtækið hefur engin tengsl við Burbanks Capital. Að baki uppbyggingu sólarkísilvers Silicor á Grundartanga standa margir öflugir fjárfestar, bæði íslenskir og erlendir, en Burbanks Capital er ekki í þeim hópi.

Íslenskir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um áform Burbanks Capital um uppbyggingu og rekstur einkarekins sjúkrahúss í Mosfellsbæ. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær, þar sem fjallað var um fyrirtækið, kom fram að á heimasíðu Burbanks Capital segi að fyrirtækið hafi samið við Silicor Materials í tengslum við uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfirði. Silicor hefur enga samninga gert við Burbanks Capital.

Silicor Materials er bandarískt fyrirtæki sem nú undirbýr uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfirði með aðkomu íslenskra og alþjóðlegra fjárfesta. Þar verður framleiddur sólarkísill með nýrri og umhverfisvænni aðferð sem nýttur verður í sólarhlöð sem virkja rafmagn úr sólarorku. Allar nánari upplýsingar um sólarkísilver Silicor er að finna hér vefsíðunni.

Terry Jester verðlaunuð fyrir störf sín hjá Silicor Materials

Nýverið tók Terry Jester forstjóri Silicor Materials við verðlaunum hjá bandaríska tímaritinu Financial Monthly fyrir störf sín. Af þessu tilefni birti tímaritið viðtal við Terry en þar svarar hún m.a. spurningum um verkefni Silicor á Íslandi. Við sendum ykkur brot úr viðtalinu þýtt á íslensku en viðtalið í heild má nálgast hér á ensku.

Hverjir voru merkustu áfangar ársins 2015 hjá Silicor Materials?

Árið 2015 var mjög spennandi ár hjá Silicor Materials. Einn merkisáfangi var að við söfnuðum 105 milljónum dollara í hlutafé sem gerir okkur kleift að reisa fyrstu verksmiðju okkar í fullri stærð á Grundartanga. Þegar hún verður fullbyggð mun Silicor verða einn af sex stærstu framleiðendum sólarkísils í heiminum og þannig munum við geta stóraukið hagkvæmni í framleiðslu sólarkísils. Við kynntum einnig metnaðarfulla áætlun til þess að vinna gegn umhverfisáhrifum og kolefnisjafna verksmiðjuna.  Við fengum Skógræktarfélag Íslands og Landvernd í lið með okkur til þess að planta rúmlega 26.000 trjám á íslandi. Þessi framkvæmd mun kolefnisjafna um 2.800 tonn af koltvísýringi árlega, sem er það sem fellur til vegna framleiðslunnar og flutninga vegna hennar.

Hvaða vaxtartækifæri sérðu fyrir fyrirtækið?

Á árinu 2015 átti sér stað mesta aukning á milli ára í sólariðnaðinum og árið 2016 lítur út fyrir að aukningin verði enn meiri. Auk jákvæðra viðbragða ríkisstjórna og aukinnar vitundar um loftslagsbreytingar, gegnir lækkandi kostnaður stóru hlutverki í aukningu sólarorku. Vöxtur Silicor er nátengdur vexti iðnaðarins og Silicor vinnur að því að auka vöxt með því að halda áfram að lækka framleiðslukostnað í sólariðnaðinum.

Ef við lítum til ársins 2016, hvers væntir þú af fyrirtækinu?

Við erum öll mjög spennt yfir framgangi mála varðandi verksmiðju okkar á Íslandi. Við áætlum að taka fyrstu skóflustunguna seinna á þessu ári og að verksmiðjan verði komin í full afköst árið 2019. Með aukinni eftirspurn eftir sólarorku, verður nýsköpun í síðari hluta virðiskeðjunnar, eins og framleiðslu Silicor á sólarkísil, afar mikilvæg til þess að tryggja áframhaldandi vöxt markaðarins.

Silicor nýtur góðs af lægra kísilverði

Fréttablaðið fjallar í dag um að verð á kísilmálmi, sem m.a. verður framleiddur í kísilverum við Húsavík og í Helguvík, hafi lækkað umtalsvert á síðustu misserum. Þessi verðlækkun mun lækka framleiðslukostnað í sólarkísilveri Silicor á Grundartanga þar sem kísilmálmur, sem er grunnhráefni framleiðslunnar, verður ódýrari í innkaupum.

Fréttablaðið tiltekur sólarkísilver Silicor á Grundartanga sem fjórða kísilverið sem er í undirbúningi hér á landi. Þó að blaðið aðgreini sólarkísilverið með því að taka fram að það muni framleiða sólarkísil sem er „hreinni afurð en hefðbundinn kísill“ telur Silicor mikilvægt að gerður sé skýrari greinarmunur á milli sólarkísilvers fyrirtækisins og kísilveranna þriggja sem blaðið fjallar um. Sólarkísilver Silicor á Grundartanga er eðlisólíkt kísilverunum þremur. Á Grundartanga verða afurðir hinna kísilveranna þriggja teknar til áframvinnslu. Þar verður kísill hreinsaður með áli svo úr verður sólarkísill sem síðan verður nýttur í sólarhlöð til að virkja sólarorku. Því er um gjörólíka starfsemi sem lýtur ólíkum lögmálum að ræða.
 

 

Héraðsdómur fjallar um ákvörðun Skipulagsstofnunar

Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í gær að taka mál, sem einstaklingar sem búa eða eiga fasteignir við Hvalfjörð, höfðuðu gegn Skipulagsstofnun, Íslenska ríkinu og Silicor Materials til efnislegrar meðferðar. Vænta má þess að málið verði flutt í héraðsdómi í haust. Hins vegar vísaði dómurinn frá kröfum sveitarfélagsins Kjósahrepps og Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, gegn sömu aðilum, þar sem viðkomandi ættu ekki lögvarða hagsmuni.

Stefnendur telja að ákvörðun Skipulagstofnunar um að framkvæmdir við sólarkísilver Silicor á Grundartanga skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum standist ekki lög. Skipulagsstofnun og allar helstu fagstofnanir á sviði umhverfismála komust að þeirri einróma niðurstöðu að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, enda hefði hún ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Þetta var niðurstaða opinberra aðila.
 
Í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum tilkynnti Silicor framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og lagði fram nauðsynleg gögn með ýtarlegum upplýsingum. Hlutverk Skipulagsstofnunar er síðan að leggja mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
 
Umhverfisáhrif sólarkísilvers Silicor á Grundartanga munu verða óveruleg. Öll starfsemi verður kolefnishlutlaus auk þess sem engin flúor- eða brennisteinsmengun verður vegna hennar. Sólarkísilverið mun framleiða sólarhlöð með hagkvæmari og umhverfisvænni hætti en hingað til hefur verið gert, sem eykur líkurnar á því að sólarorka geti keppt við hefðbundna orkugjafa. Við framleiðsluna mun falla til hliðarafurð sem nýtt verður í álhluti farartækja, sem léttir þær og dregur þar með úr orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Önnur hliðarafurð sem fellur til verður notuð í vatnshreinsistöðvar. Framleiðsluferillinn er lokaður og öll framleiðsla og hliðarafurðir nýtast sem söluvara.

Hlýnun jarðar hækkar sjávarborð

Í desember síðastliðnum sameinuðust leiðtogar ríkja jarðarinnar um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sporna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum og þeim alvarlegu afleiðingum sem þær geta haft á lífsskilyrði á jörðinni. Hækkun sjávarborðs er meðal þeirra neikvæðu áhrifa sem hlýnun jarðar hefur haft í för með sér. 

Alvarlegar afleiðingar

Samkvæmt NASA, geimferðarstofnun Bandaríkjanna, hefur sjávarborð á jörðinni hækkað um 20,32 cm frá byrjun 20. aldar og áætlar stofnunin að það muni hækka um allt að 91,44 cm fyrir lok þessarar aldar. NASA rekur þessa miklu hækkun sjávarborðs til hattrænnar hlýnunar af mannavöldum. Það er vegna þess að höfin taka við meira en 90% af þeim hita sem verður til vegna auknins magns gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum í andrúmsloftinu. Þegar sjórinn hitnar þá eykst rúmmál hans og því hækkar sjávarborðið. Að auki leiðir hærra hitastig til bráðnunar jökla og ísbreiða sem einnig leiðir til hækkunar sjávarborðs.

Hækkun sjávarborðs getur haft veruleg áhrif daglegt líf fólk allsstaðar á jörðinni. Ellefu af 15 stærstu borgum jarðarinnar standa við strendur, þar á meðal New York, Tókýó og Mumbai. Þá standa allir helstu þéttbýlisstaðir á Íslandi við strendur landsins. Hækkun sjávarborðs þýðir að hafið mun á endanum flæða yfir láglendi við strendur og fellibylir og annað óveður mun ná lengra inn á land sem þýðir að þeir munu valda enn meiri samfélagslegum skaða en þeir gera nú. Talið er að fjárhagslegur skaði vegna flóða í stærstu borgum heimsins sem standa við strendur geti aukist úr 6 milljörðum bandaríkjadala á ári í 1 trilljón árið 2050.

Silicor er hluti af lausninni

Með því að nýta orku sólar í auknum mæli til raforkuframleiðslu er hægt að sporna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum. Í sólarkísilveri Silicor á Grundartanga verður framleiddur sólarkísill með ódýrari og umhverfisvænni aðferð sem útheimtir minni orku en hefðbundnar aðferðir. Þannig gerir Silicor sólarorku að betri og ódýrari valkosti sem stuðlar að aukinni nýtingu hennar.

Hér að neðan er upplýsinamynd frá NASA um hækkun sjávarborðs:
 

Heimild:  NASA

Heimild: NASA

Viðskiptablaðið: „Þýska stálið mætt til leiks“

Marlene Wagner framkvæmdastjóri sölumála hjá þýska stórfyrirtækinu SMS Siemag var í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út 28. apríl. Þýska fyrirtækið hannar og framleiðir tæki og búnað, sem notaður verður í sólarkísilveri Silicor Materials á Grundartanga auk þess að vera fjárfestir í verkefninu.

Í viðtalinu segir Marlene Wagner meðal annars um aðkomu SMS Siemag að uppbyggingu Silicor á Grundartanga:

„Verksmiðjan á Grundartanga verður umhverfisvæn og við erum mjög meðvituð um þá áherslu sem lögð er græna tækni í dag. Vissulega hefur lækkun olíuverðs á síðustu árum haft nokkur áhrif á umhverfisvæna orkugjafa eins og sólarsellur en við teljum samt að þegar í fram í sækir liggi framtíðin í grænum orkugjöfum. Þess vegna er þetta verkefni mjög heillandi fyrir okkur og það gæti opnað dyr fyrir okkur inn í þennan umhverfisvæna iðnað.“

Marlene Wagner segir við Viðskiptablaðið að óvenjulegt sé að SMS Siemag fjárfesti í verkefnum eins og sólarkísilveri Silicor á Grundartanga:

„Venjulega gerum við þetta ekki því okkar viðskiptavinir líta slíkt hornauga og spyrja hvers vegna verið sé að fjárfesta í einni verksmiðju umfram aðra. Öðru máli gegnir um Silicor Materials því verksmiðja fyrirtækisins er sú fyrsta sem byggir á þessari grænu tækni og þar af leiðandi eigum við ekki í viðskiptum við neina samkeppnisaðila. Þess vegna ákváðum við að leggja fjármuni í Silicor Materials. Þetta er ekki há fjárhæð á okkar mælikvarða en sýnir samt að við viljum styðja við verkefnið.“

Hluti viðtals Viðskiptablaðsins er aðgengilegt á vef Viðskiptablaðsins og í heild sinni í tölublaði þess sem kom út 28. apríl.