Undirbúningur gengur vel

Undirbúningur sólarkísilvers Silicor á Grundartanga gengur vel. Hönnun mannvirkja er á lokastigi og áætlað er að fjárhagsleg lúkning verkefnisins verði í haust. Í framhaldi af því munu framkvæmdir hefjast á Grundartanga.

Silicor samdi við danska vertakafyrirtækið MT Højgaard um hönnun og byggingu mannvirkja fyrir sólarkísilverið í júní á síðasta ári og er hönnun þeirra nú á lokastigi. Í mars á síðasta ári gerði Silicor samning við hið rótgróna þýska iðnfyrirtæki SMS Siemag um framleiðslu og uppsetningu á öllum vélbúnaði sólarkísilversins. Síðan þá hefur þýska fyrirtækið unnið að undirbúningi verkefnins og voru fulltrúar þess staddir á Íslandi nú vikunni í þeim tilgangi.

Í september síðastliðnum var tilkynnt um að fyrri hluta fjármögnunar sólarkísilvers Silicor á Grundartanga væri lokið. Í þeim hluta fjármögnunarinnar komu íslenskir fagfjárfestar og lífeyrissjóðir að verkefninu með 14 milljarða króna í hlutafé. Síðan þá hefur verið unnið að seinni hluta fjármögunar, sem felur í sér hlutafjáröflun frá erlendum aðilum og lánsfjármögnun. Þessi vinna hefur gengið vel og er gert ráð fyrir að fjárhagsleg lúkning verkefnisins fari fram í haust og að í framhaldinu geti framkvæmdir hafist.

Orkuþörf sólarkísilvers Silicor er um 75-80 MW. Þegar hefur verið gengið frá orkusamningi við Orku náttúrunnar um 40 MW. Fyrir liggja skilmálasamningar við Landsvirkjun um það sem upp á vantar. Nýlega tilkynnti Landsvirkjun Silicor að tafir gætu orðið á orkuafhendingu. Silicor vinnur að því að því í samstarfi við Landsvirkjun að skýra þau mál. Þegar það liggur fyrir er áætlað að gengið verði frá endanlegum orkusamningum við Landsvirkjun.

Þá hefur Silicor gert samninga við framleiðendur sólarhlaða um kaup á 90% af framleiðslu sólarkísilversins á Grundartanga.