Viðskiptablaðið: „Þýska stálið mætt til leiks“

Marlene Wagner framkvæmdastjóri sölumála hjá þýska stórfyrirtækinu SMS Siemag var í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út 28. apríl. Þýska fyrirtækið hannar og framleiðir tæki og búnað, sem notaður verður í sólarkísilveri Silicor Materials á Grundartanga auk þess að vera fjárfestir í verkefninu.

Í viðtalinu segir Marlene Wagner meðal annars um aðkomu SMS Siemag að uppbyggingu Silicor á Grundartanga:

„Verksmiðjan á Grundartanga verður umhverfisvæn og við erum mjög meðvituð um þá áherslu sem lögð er græna tækni í dag. Vissulega hefur lækkun olíuverðs á síðustu árum haft nokkur áhrif á umhverfisvæna orkugjafa eins og sólarsellur en við teljum samt að þegar í fram í sækir liggi framtíðin í grænum orkugjöfum. Þess vegna er þetta verkefni mjög heillandi fyrir okkur og það gæti opnað dyr fyrir okkur inn í þennan umhverfisvæna iðnað.“

Marlene Wagner segir við Viðskiptablaðið að óvenjulegt sé að SMS Siemag fjárfesti í verkefnum eins og sólarkísilveri Silicor á Grundartanga:

„Venjulega gerum við þetta ekki því okkar viðskiptavinir líta slíkt hornauga og spyrja hvers vegna verið sé að fjárfesta í einni verksmiðju umfram aðra. Öðru máli gegnir um Silicor Materials því verksmiðja fyrirtækisins er sú fyrsta sem byggir á þessari grænu tækni og þar af leiðandi eigum við ekki í viðskiptum við neina samkeppnisaðila. Þess vegna ákváðum við að leggja fjármuni í Silicor Materials. Þetta er ekki há fjárhæð á okkar mælikvarða en sýnir samt að við viljum styðja við verkefnið.“

Hluti viðtals Viðskiptablaðsins er aðgengilegt á vef Viðskiptablaðsins og í heild sinni í tölublaði þess sem kom út 28. apríl.