Héraðsdómur fjallar um ákvörðun Skipulagsstofnunar

Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í gær að taka mál, sem einstaklingar sem búa eða eiga fasteignir við Hvalfjörð, höfðuðu gegn Skipulagsstofnun, Íslenska ríkinu og Silicor Materials til efnislegrar meðferðar. Vænta má þess að málið verði flutt í héraðsdómi í haust. Hins vegar vísaði dómurinn frá kröfum sveitarfélagsins Kjósahrepps og Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, gegn sömu aðilum, þar sem viðkomandi ættu ekki lögvarða hagsmuni.

Stefnendur telja að ákvörðun Skipulagstofnunar um að framkvæmdir við sólarkísilver Silicor á Grundartanga skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum standist ekki lög. Skipulagsstofnun og allar helstu fagstofnanir á sviði umhverfismála komust að þeirri einróma niðurstöðu að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, enda hefði hún ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Þetta var niðurstaða opinberra aðila.
 
Í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum tilkynnti Silicor framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og lagði fram nauðsynleg gögn með ýtarlegum upplýsingum. Hlutverk Skipulagsstofnunar er síðan að leggja mat á það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
 
Umhverfisáhrif sólarkísilvers Silicor á Grundartanga munu verða óveruleg. Öll starfsemi verður kolefnishlutlaus auk þess sem engin flúor- eða brennisteinsmengun verður vegna hennar. Sólarkísilverið mun framleiða sólarhlöð með hagkvæmari og umhverfisvænni hætti en hingað til hefur verið gert, sem eykur líkurnar á því að sólarorka geti keppt við hefðbundna orkugjafa. Við framleiðsluna mun falla til hliðarafurð sem nýtt verður í álhluti farartækja, sem léttir þær og dregur þar með úr orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Önnur hliðarafurð sem fellur til verður notuð í vatnshreinsistöðvar. Framleiðsluferillinn er lokaður og öll framleiðsla og hliðarafurðir nýtast sem söluvara.