Silicor nýtur góðs af lægra kísilverði

Fréttablaðið fjallar í dag um að verð á kísilmálmi, sem m.a. verður framleiddur í kísilverum við Húsavík og í Helguvík, hafi lækkað umtalsvert á síðustu misserum. Þessi verðlækkun mun lækka framleiðslukostnað í sólarkísilveri Silicor á Grundartanga þar sem kísilmálmur, sem er grunnhráefni framleiðslunnar, verður ódýrari í innkaupum.

Fréttablaðið tiltekur sólarkísilver Silicor á Grundartanga sem fjórða kísilverið sem er í undirbúningi hér á landi. Þó að blaðið aðgreini sólarkísilverið með því að taka fram að það muni framleiða sólarkísil sem er „hreinni afurð en hefðbundinn kísill“ telur Silicor mikilvægt að gerður sé skýrari greinarmunur á milli sólarkísilvers fyrirtækisins og kísilveranna þriggja sem blaðið fjallar um. Sólarkísilver Silicor á Grundartanga er eðlisólíkt kísilverunum þremur. Á Grundartanga verða afurðir hinna kísilveranna þriggja teknar til áframvinnslu. Þar verður kísill hreinsaður með áli svo úr verður sólarkísill sem síðan verður nýttur í sólarhlöð til að virkja sólarorku. Því er um gjörólíka starfsemi sem lýtur ólíkum lögmálum að ræða.