Terry Jester verðlaunuð fyrir störf sín hjá Silicor Materials

Nýverið tók Terry Jester forstjóri Silicor Materials við verðlaunum hjá bandaríska tímaritinu Financial Monthly fyrir störf sín. Af þessu tilefni birti tímaritið viðtal við Terry en þar svarar hún m.a. spurningum um verkefni Silicor á Íslandi. Við sendum ykkur brot úr viðtalinu þýtt á íslensku en viðtalið í heild má nálgast hér á ensku.

Hverjir voru merkustu áfangar ársins 2015 hjá Silicor Materials?

Árið 2015 var mjög spennandi ár hjá Silicor Materials. Einn merkisáfangi var að við söfnuðum 105 milljónum dollara í hlutafé sem gerir okkur kleift að reisa fyrstu verksmiðju okkar í fullri stærð á Grundartanga. Þegar hún verður fullbyggð mun Silicor verða einn af sex stærstu framleiðendum sólarkísils í heiminum og þannig munum við geta stóraukið hagkvæmni í framleiðslu sólarkísils. Við kynntum einnig metnaðarfulla áætlun til þess að vinna gegn umhverfisáhrifum og kolefnisjafna verksmiðjuna.  Við fengum Skógræktarfélag Íslands og Landvernd í lið með okkur til þess að planta rúmlega 26.000 trjám á íslandi. Þessi framkvæmd mun kolefnisjafna um 2.800 tonn af koltvísýringi árlega, sem er það sem fellur til vegna framleiðslunnar og flutninga vegna hennar.

Hvaða vaxtartækifæri sérðu fyrir fyrirtækið?

Á árinu 2015 átti sér stað mesta aukning á milli ára í sólariðnaðinum og árið 2016 lítur út fyrir að aukningin verði enn meiri. Auk jákvæðra viðbragða ríkisstjórna og aukinnar vitundar um loftslagsbreytingar, gegnir lækkandi kostnaður stóru hlutverki í aukningu sólarorku. Vöxtur Silicor er nátengdur vexti iðnaðarins og Silicor vinnur að því að auka vöxt með því að halda áfram að lækka framleiðslukostnað í sólariðnaðinum.

Ef við lítum til ársins 2016, hvers væntir þú af fyrirtækinu?

Við erum öll mjög spennt yfir framgangi mála varðandi verksmiðju okkar á Íslandi. Við áætlum að taka fyrstu skóflustunguna seinna á þessu ári og að verksmiðjan verði komin í full afköst árið 2019. Með aukinni eftirspurn eftir sólarorku, verður nýsköpun í síðari hluta virðiskeðjunnar, eins og framleiðslu Silicor á sólarkísil, afar mikilvæg til þess að tryggja áframhaldandi vöxt markaðarins.