Silicor hefur engin tengsl við Burbanks Capital

Að gefnu tilnefni vill Silicor Materials koma því á framfæri að fyrirtækið hefur engin tengsl við Burbanks Capital. Að baki uppbyggingu sólarkísilvers Silicor á Grundartanga standa margir öflugir fjárfestar, bæði íslenskir og erlendir, en Burbanks Capital er ekki í þeim hópi.

Íslenskir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um áform Burbanks Capital um uppbyggingu og rekstur einkarekins sjúkrahúss í Mosfellsbæ. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær, þar sem fjallað var um fyrirtækið, kom fram að á heimasíðu Burbanks Capital segi að fyrirtækið hafi samið við Silicor Materials í tengslum við uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfirði. Silicor hefur enga samninga gert við Burbanks Capital.

Silicor Materials er bandarískt fyrirtæki sem nú undirbýr uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfirði með aðkomu íslenskra og alþjóðlegra fjárfesta. Þar verður framleiddur sólarkísill með nýrri og umhverfisvænni aðferð sem nýttur verður í sólarhlöð sem virkja rafmagn úr sólarorku. Allar nánari upplýsingar um sólarkísilver Silicor er að finna hér vefsíðunni.