ESA staðfestir fjárfestingarsamning

Fjárfestingarsamningur Silicor Materials og íslenska ríkisins, vegna uppbyggingar sólarkísilvers á Grundartanga, er í samræmi við leiðbeiningarreglur um byggðaaðstoð. Þetta er niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem tilkynnt var meðfréttatilkynningu 29. júlí. Þetta er mikilvægur áfangi í undirbúningi Silicor fyrir uppbyggingu sólarkísilversins á Grundartanga. Næstu áfangar eru að ljúka síðari hluta fjármögnunar og ganga frá samningum um orkuafhendingu.
 
Í tilkynningu ESA kemur fram að gert sé ráð fyrir að um 450 manns muni starfa við sólarkísilverið og búist sé við að það muni hækka laun á svæðinu. Í tilkynningu kemur einnig fram að ESA telji að starfsemi sólarkísilvers Silicor muni auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu og styrkja efhagslífið á Vesturlandi.
 
Fjárfestingasamningur Silicor og íslenska ríkisins byggir á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Til að slíkir samningar geti tekið gildi þurfa þeir að fá staðfestingu frá ESA á því að þeir uppfylli skilyrði í leiðbeiningarreglum ESA. Reglurnar gera þá kröfu að ríki tryggi að aðstoðinni sé stillt í hóf og hagræði af henni vegi þyngra en möguleg samkeppnisröskun, auk þess að sýna verður fram á að aðstoðin sé viðeigandi og stuðli að byggðarþróun.
 
Á grundvelli fjárfestingasamningsins mun íslenska ríkið veita Silicor stuðning í formi skattahagræðis og ívilnandi reglna um leigu og fyrningu í tíu ár frá því að sólarkísilverið tekur til starfa. Aðstoðin er metin á um 4,64 milljarða króna en heildarfjárfesting Silicor Materials vegna uppbyggingar sólarkísilsversins á Grundartanga er um 120 milljarðar króna.