sólarkísilver

Silicor semur við AM Technical Solutions um verkefnastjórnun

Silicor Materials hefur samið við bandaríska fyrirtækið AM Technical Solutions(AMTS) um að annast verkefnastjórnun við byggingu sólarkísilvers fyrirtækisins á Grundartanga. 

AMTS er sérhæfir sig í umsjón með byggingaframkvæmdum og verkefnastjórnun fyrir hátækniiðnaðinn. Silicor valdi AMTS egna alþjóðlegrar reynslu fyrirtækisins og góðs árangurs við stjórnun byggingar flókinna hátækniverksmiðja. AMTS mun samræma byggingaframkvæmdir og framkvæmdir vegna tækjabúnaðar í verksmiðjunni. 

Silicor hafði þegar samið við þýska iðnfyrirtækið SMS Siemag  um framleiðslu og uppsetningu á tækjabúnaði og danska verktakafyrirtækið MT Højgaard um byggingu sólarkísilversins.

Viðskiptablaðið: „Þýska stálið mætt til leiks“

Marlene Wagner framkvæmdastjóri sölumála hjá þýska stórfyrirtækinu SMS Siemag var í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út 28. apríl. Þýska fyrirtækið hannar og framleiðir tæki og búnað, sem notaður verður í sólarkísilveri Silicor Materials á Grundartanga auk þess að vera fjárfestir í verkefninu.

Í viðtalinu segir Marlene Wagner meðal annars um aðkomu SMS Siemag að uppbyggingu Silicor á Grundartanga:

„Verksmiðjan á Grundartanga verður umhverfisvæn og við erum mjög meðvituð um þá áherslu sem lögð er græna tækni í dag. Vissulega hefur lækkun olíuverðs á síðustu árum haft nokkur áhrif á umhverfisvæna orkugjafa eins og sólarsellur en við teljum samt að þegar í fram í sækir liggi framtíðin í grænum orkugjöfum. Þess vegna er þetta verkefni mjög heillandi fyrir okkur og það gæti opnað dyr fyrir okkur inn í þennan umhverfisvæna iðnað.“

Marlene Wagner segir við Viðskiptablaðið að óvenjulegt sé að SMS Siemag fjárfesti í verkefnum eins og sólarkísilveri Silicor á Grundartanga:

„Venjulega gerum við þetta ekki því okkar viðskiptavinir líta slíkt hornauga og spyrja hvers vegna verið sé að fjárfesta í einni verksmiðju umfram aðra. Öðru máli gegnir um Silicor Materials því verksmiðja fyrirtækisins er sú fyrsta sem byggir á þessari grænu tækni og þar af leiðandi eigum við ekki í viðskiptum við neina samkeppnisaðila. Þess vegna ákváðum við að leggja fjármuni í Silicor Materials. Þetta er ekki há fjárhæð á okkar mælikvarða en sýnir samt að við viljum styðja við verkefnið.“

Hluti viðtals Viðskiptablaðsins er aðgengilegt á vef Viðskiptablaðsins og í heild sinni í tölublaði þess sem kom út 28. apríl.

 

Undirbúningur gengur vel

Undirbúningur sólarkísilvers Silicor á Grundartanga gengur vel. Hönnun mannvirkja er á lokastigi og áætlað er að fjárhagsleg lúkning verkefnisins verði í haust. Í framhaldi af því munu framkvæmdir hefjast á Grundartanga.

Silicor samdi við danska vertakafyrirtækið MT Højgaard um hönnun og byggingu mannvirkja fyrir sólarkísilverið í júní á síðasta ári og er hönnun þeirra nú á lokastigi. Í mars á síðasta ári gerði Silicor samning við hið rótgróna þýska iðnfyrirtæki SMS Siemag um framleiðslu og uppsetningu á öllum vélbúnaði sólarkísilversins. Síðan þá hefur þýska fyrirtækið unnið að undirbúningi verkefnins og voru fulltrúar þess staddir á Íslandi nú vikunni í þeim tilgangi.

Í september síðastliðnum var tilkynnt um að fyrri hluta fjármögnunar sólarkísilvers Silicor á Grundartanga væri lokið. Í þeim hluta fjármögnunarinnar komu íslenskir fagfjárfestar og lífeyrissjóðir að verkefninu með 14 milljarða króna í hlutafé. Síðan þá hefur verið unnið að seinni hluta fjármögunar, sem felur í sér hlutafjáröflun frá erlendum aðilum og lánsfjármögnun. Þessi vinna hefur gengið vel og er gert ráð fyrir að fjárhagsleg lúkning verkefnisins fari fram í haust og að í framhaldinu geti framkvæmdir hafist.

Orkuþörf sólarkísilvers Silicor er um 75-80 MW. Þegar hefur verið gengið frá orkusamningi við Orku náttúrunnar um 40 MW. Fyrir liggja skilmálasamningar við Landsvirkjun um það sem upp á vantar. Nýlega tilkynnti Landsvirkjun Silicor að tafir gætu orðið á orkuafhendingu. Silicor vinnur að því að því í samstarfi við Landsvirkjun að skýra þau mál. Þegar það liggur fyrir er áætlað að gengið verði frá endanlegum orkusamningum við Landsvirkjun.

Þá hefur Silicor gert samninga við framleiðendur sólarhlaða um kaup á 90% af framleiðslu sólarkísilversins á Grundartanga.

Sólarkísilver Silicor á Grundartanga

 
 

Þau Terry Jester stjórnarformaður Silicor og Michael Russo yfirmaður viðskiptaþróunar fyrirtækisins voru á Íslandi í febrúar. Þau settust niður til þess að segja aðeins frá Silcior, uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga og nokkrum af styrkleikum verkefnisins.