umhverfisvænt

Viðskiptablaðið: „Þýska stálið mætt til leiks“

Marlene Wagner framkvæmdastjóri sölumála hjá þýska stórfyrirtækinu SMS Siemag var í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út 28. apríl. Þýska fyrirtækið hannar og framleiðir tæki og búnað, sem notaður verður í sólarkísilveri Silicor Materials á Grundartanga auk þess að vera fjárfestir í verkefninu.

Í viðtalinu segir Marlene Wagner meðal annars um aðkomu SMS Siemag að uppbyggingu Silicor á Grundartanga:

„Verksmiðjan á Grundartanga verður umhverfisvæn og við erum mjög meðvituð um þá áherslu sem lögð er græna tækni í dag. Vissulega hefur lækkun olíuverðs á síðustu árum haft nokkur áhrif á umhverfisvæna orkugjafa eins og sólarsellur en við teljum samt að þegar í fram í sækir liggi framtíðin í grænum orkugjöfum. Þess vegna er þetta verkefni mjög heillandi fyrir okkur og það gæti opnað dyr fyrir okkur inn í þennan umhverfisvæna iðnað.“

Marlene Wagner segir við Viðskiptablaðið að óvenjulegt sé að SMS Siemag fjárfesti í verkefnum eins og sólarkísilveri Silicor á Grundartanga:

„Venjulega gerum við þetta ekki því okkar viðskiptavinir líta slíkt hornauga og spyrja hvers vegna verið sé að fjárfesta í einni verksmiðju umfram aðra. Öðru máli gegnir um Silicor Materials því verksmiðja fyrirtækisins er sú fyrsta sem byggir á þessari grænu tækni og þar af leiðandi eigum við ekki í viðskiptum við neina samkeppnisaðila. Þess vegna ákváðum við að leggja fjármuni í Silicor Materials. Þetta er ekki há fjárhæð á okkar mælikvarða en sýnir samt að við viljum styðja við verkefnið.“

Hluti viðtals Viðskiptablaðsins er aðgengilegt á vef Viðskiptablaðsins og í heild sinni í tölublaði þess sem kom út 28. apríl.

 

Kolefnishlutlaust sólarkísilver

 

Davíð Stefánsson fulltrúi Silicor á Íslandi og Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðs.

 

Davíð Stefánsson fulltrúi Silicor Materials á Íslandi og Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðs undirrituðu nýverið samning um að Kolviður sjái um að binda alla losun koltvísýrings sem verður til við starfsemi sólarkísilversins á Grundartanga. Það verður gert með því að planta árlega 26 þúsund trjám. Losun koltvísýrings vegna framleiðslunnar verður aðeins 48 tonn á ári sem er svipað og 24 dæmisgerðar heimilisbifreiðar losa á ári. Losun vegna annarar starfsemi, t.d. notkunar vinnuvéla, á athafnasvæði Silicor er áætluð um 2.759 tonn. Því er samanlögð losun áætluð 2.807 tonn á ári en til samanburðar er losun dæmisgerðs álvers á Íslandi um 500 þúsund tonn á ári. 

Silicor vinnur gegn hlýnun jarðar

Verði ekki hægt á hlýnun jarðar af manna völdum getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífsskilyrði á jörðinni. Samkomulag um aðgerðir í loftslagsmálum sem náðist í París vísar veginn fyrir þá leið sem verður að fara. Silicor vill verða hluti af lausninni sem kemur í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar. Framlag Silicor er eftirfarandi:

  • Að framleiða sólarkísil með ódýrari og umhverfisvænni hætti en aðrir og þannig stuðla að aukinni notkun orkugjafa í heiminum sem ekki valda losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Að grípa til aðgerða samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til jafns við þann útblástur koltvísýrings sem kemur frá sólarkísilveri fyrirtækisins.

  • Að kaupa upprunavottorð með allri raforku sem sólarkísilverið notar við framleiðslu til að tryggja að framleiðsla raforkunnar auki ekki losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Að binda allan koltvísýring sem starfsemi sólarkísilversins orsakar, bæði framleiðslan og önnur starfsemi á athafnasvæði þess, með skógrækt í samtarfi við Kolvið.

  • Silicor hefur þegar stigið fyrsta skrefið og gert samning við Kolvið, sjóð sem stofnaður var af Landvernd og Skógræktarfélagi Íslands, um að árlega verði plantað 26 þúsund trjám til að binda alla losun koltvísýrings frá starfsemi sólarkísilversins. Þá hefur fyrirtækið þegar hafið undirbúning að öðrum skrefum og verður greint frá þeim jafnóðum og þau verða stigin. 

Umhverfisvænt sólarkísilver

Sólarkísilver Silicor mun aðeins losa um 48 tonn af koltvísýringi (CO2) ári. Til samanburðar losar dæmigerður heimilisbíll á Íslandi á bilinu 1 til 2 tonn á ári og álver 400 til 500 þúsund tonn. Þessi litla losun sólarkísilversins er árangur af starfi vísindamanna Silicor sem tekist hefur að draga verulega úr losun frá því sem upphaflega var áætlað. Þá hefur Silicor áætlað að útblástur frá annarri starfsemi, flutningum og öðru sem krefst notkunar vinnuvéla, á athafnasvæði Silicor á Grundartanga verði um 2.759 tonn á ári.

Sólarkísilverið mun byggja á framleiðsluferli sem Silicor hefur þróað undanfarinn áratug. Það er öruggara, ódýrara og umhverfisvænna en hefðbundnar aðferðir. Auk þess er orkuþörfin aðeins þriðjungur af því sem hefðbundnar aðferðir kalla á. Enginn úrgangur eða spilliefni falla til við framleiðsluna. Auk sólarkísils verða til tvær aukaafurðir við framleiðsluna, annars vegar álblöndur sem nýtast til dæmis til að létta bíla og flugvélar og hins vegar álklóríð sem notað er til hreinsunar á vatni. Þannig er allt hráefni nýtt til hins ítrasta.

Sólarkísilver Silicor Materials á Grundartanga verður kolefnishlutlaust og mun því ekki auka útblástur gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Það verður tryggt með aðgerðum samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. 

Sólarkísilverið mun framleiða sólarkísil fyrir sólarhlöð sem virkjað geta 38 sinnum meiri raforku en fer til framleiðslunnar úr geislum sólarinnar.