Orkugjafi framtíðarinnar

Silicor Materials undirbýr byggingu sólarkísilvers á Grundartanga. Þar verður framleiddur sólarkísill með ódýrari og umhverfisvænni aðferð sem útheimtir minni orku en hefðbundnar aðferðir. Þannig gerir Silicor sólarorku að betri og ódýrari valkosti sem stuðlar að aukinni nýtingu hennar. 

Samfélög jarðarinnar þurfa á sífellt meiri orku að halda. Til þess að mæta því án aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda þarf að nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Orka sólar er óendanleg og hana er hægt að virkja gegn hlýnun jarðar án losunar. Nýting hennar er því hluti af lausn vandans. 

Kolefnishlutlaus framleiðsla

Sólarkísilver Silicor Materials á Grundartanga verður kolefnishlutlaust og mun því ekki auka losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Það verður tryggt með aðgerðum samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Silicor hefur þegar stigið fyrsta skrefið með samningi við Kolvið um að planta árlega 26 þúsund trjám sem binda alla losun koltvísýrings sem verður til við starfsemi sólarkísilversins á Grundartanga.

Sólarkísilverið mun framleiða sólarkísil fyrir sólarhlöð sem virkjað geta 38 sinnum meiri raforku úr geislum sólarinnar en fer til framleiðslunnar. Losun koltívsýrings vegna framleiðslunnar verður aðeins 48 tonn á ári sem er  svipað og 25-35 dæmisgerðar heimilisbifreiðar losa á ári, en dæmigert álver á Íslandi um 500 þúsund tonn á ári. 

 

Sólarkísill er notaður í sólarhlöð til að virkja sólarorku sem stuðlar að sjálfbærri þróun um allan heim. 

Silicorferlið

Sólarkísilver Silicor mun byggja á nýju framleiðsluferli sem fyrirtækið hefur einkaleyfi á. Ferlið hefur verið í þróun frá árinu 2006. 

Silicorferlið er öruggara, umhverfisvænna, ódýrara og með aðeins þriðjungs orkuþörf miðað við hefðbundar aðferðir.

Silicorferlið felst í því að bræða kísil saman við ál sem grípur óhreinindi úr kísilnum og eftir situr 99,9999% hreinn sólarkísill. Að auki verða til tvær aukaafurðir: Álblöndur sem notaðar eru til að létta farartæki og álklóríð sem er notað við vatnshreinsun. Þannig fullnýtir Silicor hráefnin án þess að úrgangur eða spilliefni falli til við framleiðsluna.